Nature sense Á bak við snyrtivörumerkið Nature Sense er ilmkjarnaolíufræðingurinn Jackie Cardoso. Jackie er brasilísk af indjána ættum og hefur búið á Íslandi síðan 1992. Jackie hefur frá unga aldri notað og fræðst um lækningamátt jurta. Árið 2002 fór Jackie af stað með framleiðslu á náttúrulegum snyrtivörum undir nafninu Yndisseiður. Jackie hefur einnig menntað sig í nuddi, ilmkjarnaolíufræði, reiki og ýmsum öðrum náttúrulegum meðferðum ásamt því að sækja námskeið erlendis í þróun og framleiðslu á snyrtivörum. Vörurnar nutu mikilla vinsælda og árið 2006 opnaði Jackie verksmiðju ásamt Spa í Kópavogi. Verksmiðjunni var lokað árið 2010 í kjölfar hrunsins. Árið 2012 flutti Jackie til Vestmannaeyja. Í upphafi ætlaði Jackie bara að verða nuddari í Vestmannaeyjum en vegna eftirspurnar frá viðskiptavinum fór fljótlega framleiðsla af stað í eldhúsinu heima í Eyjum. Fljótlega reyndist það ekki nóg og smá saman fór framleiðslan að aukast og er í gangi af fullum krafti í dag. Vörurnar eru 100% náttúrulegar með engum aukaefnum ásamt því að vera 100% vegan. Því miður höfum við ekki enn öðlast vottun en verið er að vinna í því, öll okkar hráefni eru þó vegan og hafa vottun. Í dag er Nature Sense selt í Heilsueyjunni Spa sem staðsett er í hjarta Vestmannaeyjabæjar. Þar er hægt að kaupa vörur og áfyllingar. Einnig er boðið upp á andlits- og líkamsmeðferð þar sem notaðar eru Nature Sense vörur.